14. febrúar 2025

BL gefur Iðunni nýjan Renault Megane E-Tech

BL afhenti nýverið Iðunni fræðslusetri glænýjan Renault Megane E-Tech 100% rafmagnsbíl, sem mun gegna mikilvægu hlutverki í kennslu og þjálfun innan bílgreina. Bíllinn var sérstaklega fluttur til landsins til að nýtast í kennslu.

Fyrsta verkefni bílsins verður á Íslandsmóti iðn- og verkgreina, Mín framtíð 2025, sem fer fram í Laugardalshöll dagana 13.–15. mars næstkomandi. Þar mun hann vera til sýnis.

Að mótinu loknu mun bíllinn nýtast áfram í fjölbreyttum kennslutengdum verkefnum, svo sem á rafbílanámskeiðum, almennum rafmagnsnámskeiðum og jafnvel í sveinsprófum.

Vilborg Harðardóttir, framkvæmdastjóri Iðunnar, og Sigurður Svavar Indriðason, leiðtogi bílgreina, tóku við bílnum frá Ingþóri Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra þjónustusviðs BL. Með þessu framtaki eflir BL stuðning sinn við fræðslu og menntun í bílgreinum og stuðlar að því að nemendur og fagaðilar hafi aðgang að nýjustu tækni í greininni.